143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Við verðum að vara okkur á því að blanda ekki saman einelti og meðvirkni. Það er nú þannig að hv. þingmaður sem hér hefur verið rætt um er ekki sá auðmjúkasti og hefur ekki verið að fara friðarveg, hvorki í þingsal né úti í samfélaginu.

Ég hef séð einelti, ég hef barist gegn einelti og ég séð slíka tilburði í þessu starfi. En ég hef líka séð að þetta starf að vera stjórnmálamaður er þess eðlis að það er ljótt, það er vont og er ljótt og vont gagnvart öllum sem eru í því. Ef hv. þingmaður, hvort sem það er hv. þm. Vigdís Hauksdóttir eða hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, kemur fram með svona hluti eins og þetta með Möltu, sem er verulega neyðarlegt fyrir landið okkar, verður (Forseti hringir.) hv. þingmaður að geta staðið undir því og hreinlega beðist velvirðingar. (Forseti hringir.)Mér finnst nánast eins og þingið allt þurfi að biðjast velvirðingar á því að þetta séu vitsmunirnir hér innan húss. (Forseti hringir.)Mér finnst það agalegt. Ég skammast mín svo mikið.