143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er kannski vel við hæfi að við skólamennirnir komum hér og ræðum einmitt hugtakið einelti. Við verðum að átta okkur á því að við sem erum stjórnmálamenn köstum rýrð á hvert annað með framkomu okkar. Það er gjarnan talað um okkur sem eina heild, gjarnan talað um að allir séu eins og hver mistök sem maður gerir sjálfur kasti skugga á alla hina. Ef menn þola það ekki og geta ekki tekið gríni þegar maður segir einhverja bölvaða vitleysu, eins og maður sjálfur hefur auðvitað gert, eða það að fá gagnrýni fyrir rangar ákvarðanir. En að það sé skylt við einelti? Það hefur ekkert með það að gera. Það er hluti af því að vera í stjórnmálum og taka þátt í opinberri umræðu.

Það má heldur ekki drepa umræðuna. Ef við verðum að athlægi í heiminum fyrir ákveðnar rangar fullyrðingar, ef það má ekki ræða þær, ef það má ekki minnast á það, þá er það þöggun. Við skulum verja okkur gegn því að nokkur einasti maður verði hér fyrir einelti en við skulum ekki drepa umræðuna.