143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða og efnisríka ræðu. Ég er sammála henni um að það er óskynsamlegt að loka leiðum. Ég vildi inna hana eftir því hvernig hún horfði á þá þætti.

Gylfi Zoëga prófessor sagði í gær að ekki væri skynsamlegt að loka með öllu til næstu áratuga annarri af tveimur leiðum sem er vitað að við höfum. Það er líka ljóst, af viðbrögðum forsvarsmanna atvinnulífsins á síðustu dögum, yfirlýsingu forstjóra Össurar nú í kvöld um að hann væri í áfalli yfir þessum fréttum, að það er ekkert gefið að við höldum þeim fyrirtækjum sem við viljum halda hér í landinu ef við mætum ekki þörfum þeirra.

Nú hef ég oft nært með mér efasemdir um hvort Evrópusambandið sé endilega rétt lausn. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort við eigum að hafa einhverja aðra mynd á samskiptum okkar við Evrópu en alltaf komist aftur og aftur að þeirri niðurstöðu að best sé að halda áfram með aðildarumsóknina.

Ef maður horfir á þetta út frá hagsmunum umræddra fyrirtækja þá blasir við að fyrir þau er verið að loka annarri af tveimur færum leiðum og það án þess að ríkisstjórnin hafi útfært hina leiðina. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki sett fram neina skýra leið um það hvernig hún sjái fyrir sér afnám hafta og að fyrirtækin í landinu geti búið við íslenska krónu sem stöðugan gjaldmiðil til næstu áratuga.

Vegna þess að hv. þingmaður nefndi möguleikana á frestun er ekki hægt að sjá fyrir sér að hægt væri að fresta ferlinu. Það liggur hvort sem er ekkert á að taka ákvörðun að þessu leyti. Það mætti þá eyða orku í að útfæra betur hvernig hægt væri að (Forseti hringir.) afnema höft og láta íslenska krónu virka, (Forseti hringir.) sjá hvort það gæti gengið, bíða átekta og halda þessum glugga opnum.