143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að það sé einmitt stöðugleikinn, lægri vextir, afnám verðtryggingar, betra umhverfi þar sem við getum treyst á þær skuldbindingar sem við gerum, sem skipta okkur máli. Er það raunverulegur ávinningur af aðild eða ekki?

Varðandi krónuna hafa menn rætt oft að kosturinn við krónuna, segja sumir, sé að þegar menn lenda í vandræðum, eins og við lentum í í hruninu, fellur gengið á henni og þá verður sjálfvirk kaupmáttarrýrnun þar sem verðmæti færast frá einstaklingum yfir á fyrirtæki. Það gæti ekki gerst ef við værum með öruggan gjaldmiðil. Þá yrðu menn að finna aðrar leiðir og mikilvægasta leiðin er náttúrlega að hindra að við yrðum fyrir álíka áföllum og þá.

Mig langar að heyra betur vangavelturnar um EES og samninginn vegna þess að ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að skoða heildarstöðu okkar, núverandi þátttöku í EES og hugsanlega breytingu við að fara í ESB og hvaða afleiðingar það hefur fyrir okkur og fullveldið ef við hættum við og lokum dyrunum.