143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:07]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er margt sem kemur manni spánskt fyrir sjónir þegar maður sest á Alþingi hvað vinnubrögðin varðar. Mér finnst svolítið móðgandi að vera á mælendaskrá til að ræða skýrsluna og vera að undirbúa mig undir hana á föstudagsmorgni og skrifa einhverjar ræður sem í dag mundu bara hljóma fáránlega í ljósi þessa útspils. Eins og ég sagði í dag þá ætla ég ekki að taka það persónulega en hæstv. utanríkisráðherra og þá sem leggja þetta mál fram langaði greinilega ekkert að hlusta á það sem ég hafði um það að segja. Það mundi ekki breyta skoðun þeirra, þetta var bara fyrir fram ákveðið. Við áttum að ræða þessa skýrslu til málamynda og síðan átti að koma með þessa þingsályktunartillögu inn í þingið í miklum flýti. Hér erum við að ræða þessi mál og klukkan er tíu mínútur gengin í tólf og við ræðum þau ekki af því að við í minni hlutanum hefðum áhuga á því heldur vegna þess að meiri hlutinn ákvað að við skyldum ræða þetta hér á mánudagskvöldi til miðnættis. Þetta eru mjög einkennileg vinnubrögð.