143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem kvatt hafa sér hljóðs um fundarstjórn forseta. Við erum að fást við það að umræðan um þessa skýrslu er erfið og flókin vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra ákvað að haga málum á þann veg að hún yrði ekki gagn sem verið væri að ræða til að hún yrði grunnur að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, að við gætum treyst því. Það er vegna þess að honum lá svo á að koma hingað inn með þessa hörmungartillögu sína sem við munum ræða einhvern tíma á næstu dögum.

Það er þó alger lágmarkskrafa að hæstv. utanríkisráðherra taki þátt í umræðum, að hann svari efnislegum spurningum sem beint er til hans. Eða finnst honum yfir höfuð það ekki svaravert þegar þingmaður spyr hvaða mynd ríkisstjórnin hafi gefið sér af samskiptum við Evrópusambandið fari svo að viðræðum verði slitið? Mér finnst það fullkomlega málefnaleg spurning og alveg fráleitt af utanríkisráðherra að svara henni ekki.