143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það kom mér á óvart þegar meiri hlutinn ákvað að við skyldum ræða þetta mál í kvöld. Við vitum ekki til þess að frumvörp séu að hrannast upp, við vitum ekki af hverju ekki má ræða þetta mál á morgun. Forseti var ítrekað hvattur til að útskýra hvað lægi á, af hverju þyrfti að ræða málið á kvöldfundi. Ég tel ekkert eftir mér að vinna á kvöldin en ég á að mæta á fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á morgun kl. 9 og ég á eftir að lesa gögnin fyrir þann fund. Ég var að fá þau fyrir ekkert löngu og hafði hugsað mér að nýta kvöldið.

Ég hélt að forseti þyrfti að gera grein fyrir því eða rökstyðja það af hverju verið væri að kalla eftir kvöldfundi — það er afbrigði, sem svo er kallað, svo að ég noti nú orð eða lögum um þingsköp — og ítrekað var kallað eftir þessu. Ég fékk aldrei svör við því. Mér finnst eðlilegt að forseti rökstyðji þá ákvörðun að halda hér kvöldfundi sem ekki eru að venju.