143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:31]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseta hefur borist í dag bréf formanns Samfylkingarinnar í tilefni af því að á dagskrá þingfundarins er stjórnartillaga um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Eru brigður bornar á að tillagan sé með því sniði sem stjórnarskrá og lög krefjast og eigi því ekki að taka hana á dagskrá þingsins.

Af þessu tilefni skal þess getið að tillaga til þingsályktunar á þskj. 635 er borin fram með lögformlegum og þinglegum hætti, svo sem gildir um ákvarðanir ríkisstjórnar í formi tillagna til þingsályktana. Er tillagan lögð fram af ríkisstjórninni og árituð af forseta Íslands, samanber 25. gr. stjórnarskrárinnar.

Um form og meðferð tillögunnar fer samkvæmt 45. gr. þingskapa. Engir slíkir annmarkar eru á tillögunni sem að mati forseta eiga að leiða til þess að hana beri ekki að taka á dagskrá fundarins. Af stöðu Alþingis sem æðsta handhafa ríkisvalds og þingræðisvenjunni leiðir að Alþingi getur beint ályktunum sínum til ríkisstjórnar eða ráðherra um einstök málefni. Óumdeilt er jafnframt að ályktanir þingsins hafa ekki lagagildi. Þegar allt kemur til alls er það Alþingi hverju sinni eða meiri hluti þess sem ákveður hvort það fellur frá eða breytir fyrri ályktun sinni.

Samkvæmt þessu standa lagaskilyrði ekki til annars en að þingsályktunartillagan með tillögugreininni á þskj. 635 verði á dagskrá þingsins.