143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að hrósa hæstv. forseta fyrir að hafa brugðist svo fljótt við og gefið úrskurð um þá fyrirspurn sem hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lagði fram.

Hitt er að ég er algjörlega ósammála niðurstöðu hæstv. forseta. Hæstv. forseti vísaði að vísu með fallegum vestfirskum þóttasvip frá sér allri ábyrgð á greinargerðinni og það sýnir smekk hæstv. forseta. Ég er honum algjörlega sammála um það að ekki mundi ég undir nokkrum kringumstæðum vilja taka ábyrgð á þeim fjölmælum sem þar er að finna en hæstv. forseti ber eigi að síður ábyrgð á sem þingmaður í stjórnarliðinu.

Mér finnst hins vegar að mjög einföld rök liggi því til grundvallar að þetta sé ekki þingtækt mál. Það felst í því að hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram skýrt lagaálit, varið það í fjölmiðlum og í utanríkismálanefnd, þar sem segir að þingsályktunartillaga sem felur það í sér að binda framtíðina hafi ekkert gildi. Það hlýtur að vera krafa (Forseti hringir.) til ríkisstjórnarinnar að hún fylgi því sem hún hefur sjálf sagt. Hæstv. forseti er kannski ekki vanur því af hálfu núverandi ríkisstjórnar.