143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði hér á hv. þm. Árna Pál Árnason útskýra það bréf sem hann hafði skrifað forseta Alþingis. Ég hafði séð það en ekki áttað mig á að í bréfinu er þess óskað að forsætisnefnd leggi mat á hvort tillagan er þingtæk og færi fyrir því ástæður.

Mér finnst með þessu bréfi, sem er skrifað af formanni stjórnmálaflokks, að full ástæða sé til þess að fara eftir því sem þar er beðið um og að forsætisnefnd sé kölluð saman til að fara yfir þetta mál.

Forsætisnefnd hefur áður þurft að halda fund og kalla eftir áliti frá yfirlögfræðingi Alþingis vegna einræðistilburða hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar þegar hann taldi sig geta kallað til baka aðildarviðræður við Evrópusambandið á eigin vegum án þess að spyrja þingið. (Forseti hringir.)

Ég kem til þess að óska eftir því sem einn af forsætisnefndarmönnum að fundi verði frestað og (Forseti hringir.) haldinn fundur í forsætisnefnd þar sem þetta bréf verður tekið fyrir.