143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[14:05]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Vegna þess sem menn hafa rætt hér um greinargerðina vil ég taka undir þær ábendingar sem fram hafa komið. Það er ráðrúm miðað við mælendaskrá til að gera breytingar á þessari greinargerð sem er ekki bara móðgandi fyrir fyrrverandi þingmenn sem ekki eru lengur hér heldur líka þá sem sitja hér inni, þar á meðal hv. þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins sem tók þátt í því að samþykkja tillöguna um umsókn að Evrópusambandinu.

Ég vakti athygli forseta á þessu á fundi þingflokksformanna í gær og spurði út í það hvort menn mundu ekki vilja reyna að nýta þann tíma sem þeir hefðu til að gera slíkar breytingar, burt séð frá því hvaða skoðanir menn hafa á efnisatriðum þessa máls, sem ég held að fari svo sem ekki á milli mála.

Ég er mjög undrandi á því að menn skuli ekki vilja nýta tækifærið til að gera þessar breytingar. Þetta er ótrúlega ósmekklegt.