143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[14:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hluti af þeirri tillögu sem við erum hér að deila um mælir fyrir um hvernig þing framtíðarinnar eigi að haga sér. Hæstv. forseti hefur sagt að það sé marklaust. Þannig er það efnislegur dómur hæstv. forseta yfir þessari þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra að hún sé marklaus. Það er því mjög erfitt að sneiða hjá þeirri ályktun að sú tillaga sem fyrir liggur sé óþingleg.

Ég hafði hins vegar ekki í fyrri ræðu minni komið auga á það sem stendur í greinargerðinni, það er alveg óheyrilegt, ég hef aldrei séð slíkt áður. Þar er ríkisstjórnin í reynd að bera þingmenn úr einum tilteknum flokki þeim sökum að þeir hafi brotið stjórnarskrá. Það er ekkert öðruvísi.

Hæstv. forseti hefur áður skikkað orðsóða úr sínum stóli og ég skora á hæstv. forseta að skikka líka ritsóða ríkisstjórnarinnar til hlýðni. Þeir verða að kunna mannasiði þegar þeir tala við þingið.