143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að ræða hér hugtak sem hefur verið svolítið í umræðunni um skýrslu utanríkisráðherra um Evrópusambandið og þingsályktunartillögu um slit viðræðna við Evrópusambandið, hugtakið ómöguleiki. Ég horfði með athygli á viðtal við hæstv. fjármálaráðherra í Kastljósi sjónvarpsins í gær þar sem hann kynnti hugsunina á bak við hugtakið og þá stöðu sem upp er komin. Ég gat ekki heyrt neinn rökstuðning fyrir því hvers vegna ómöguleikinn var mönnum ekki ljós í aðdraganda síðustu kosninga.

Það er ekkert sem hefur gerst í stöðunni sem dregur ómöguleikann fram í dagsljósið. Rökstuðningur hæstv. fjármálaráðherra í þeim efnum var fullkomlega ótækur. Hann dugði ekki og hann gengur ekki upp. Ég vil vekja sérstaklega athygli á því þegar menn halda því fram að þeir geti ekki farið að vilja meiri hluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslum að það var gert í tvígang á síðasta kjörtímabili þar sem stjórnvöld efndu til þjóðaratkvæðagreiðslna sem voru þeim þvert um geð — í tvígang. Og þau fóru í tvígang að vilja og niðurstöðu þjóðarinnar í þeim efnum.

Ég skil ekki að menn skuli láta bjóða sér þennan rökstuðning í stjórnarflokkunum vegna þess að hann heldur ekki vatni. Það er Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem hefur skilað inn þeirri skýrslu sem er til umræðu.

Í atkvæðagreiðslunni um Icesave sem fram fór var Hagfræðistofnun Háskóla Íslands líka falið að undirbúa kynningarefnið sem var hlutlaust. Af hverju geta núverandi stjórnvöld ekki gert slíkt hið sama? Af hverju er skyndilega (Forseti hringir.) kominn til hinn svokallaði ómöguleiki?