143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlega birtust á heimasíðu ASÍ nokkrar staðreyndir sem hafa fengið litla athygli. Þar er fjallað um þróun vöruverðs á Íslandi. Þar kemur fram að að staðaldri gerir Alþýðusamband Íslands verðkannanir í 15 verslunum á Íslandi og ber saman. Þann 19. febrúar kemur fram, með leyfi forseta, í fréttatilkynningu frá Alþýðusambandinu:

„Fjórar verslanir hækkuðu verð umfram verðbólgu síðustu 12 mánuði.“

Verðbólgan mælist 3,7%.

„13 verslanir af 15 hafa hækkað verð hjá sér á síðustu 12 mánuðum.“

Þetta gerist á sama tíma og íslenska krónan hefur styrkst gagnvart helstu viðskiptamyntum um 8%, mest gagnvart jeni, minnst gagnvart evru og danskri krónu.

Eins og ég sagði áðan hafa þessar staðreyndir ekki ratað inn í nokkurn einasta fjölmiðil á Íslandi en í staðinn hefur fjölmiðlaflóran, og þar með ríkisfjölmiðillinn, gerst sérstök málpípa aðila sem vilja flytja inn ost af ókunnum tegundum sem er mikil eftirspurn eftir. Þeir aðilar hafa fengið ótakmarkaðan tíma í fréttatíma ríkissjónvarpsins (Gripið fram í.) til að reka áróður fyrir því að við Íslendingar lifum ekki af nema fá ost af sauðum og bufflum.

Ég held að full þörf sé á því að þessi mál komist á dagskrá fjölmiðla vegna þess að þau varða hvert einasta heimili í landinu miklu. Það er óþolandi að stærstu verslanir landsins skuli komast upp með að skila ekki styrkingu krónunnar út í vöruverð á Íslandi.