143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er enn þá hægt að finna leiðir og lausnir úr þeirri sjálfheldu sem ríkisstjórnin er búin að koma sér í. Kannski er það eins og oft er sagt að gefið er út hærra spil eða látið eins og maður sé með spil á hendi sem eru ekki til staðar og svo er viðurkennt eða dregið til baka á þann stað sem fólk vildi upprunalega fara á. Ef til vill þurfum við þingmenn minni hluta og meiri hluta að taka höndum saman og koma vitinu fyrir ríkisstjórnina. Ég tók eftir því á Facebook áðan að fyrrverandi formaður kvennahreyfingar Framsóknarflokksins lagði til að farin yrði mildari leið. Ég sé svipuð viðbrögð víða hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar til langs tíma.

Ég er sannfærð um að minni hlutinn eða stjórnarandstaðan, hvað sem fólk kallar sig, er tilbúin að hjálpa til við að bjarga ríkisstjórninni úr þessari ólánsstöðu og ég legg til að við gefum þeim einhverjar útgönguleiðir. Kannski er hægt að gera það þegar þetta mál er komið til nefndar. En það væri mjög gagnlegt ef fólk eða þeir sem eru ábyrgir fyrir þeirri hryggðartillögu sem hér liggur fyrir, og ætti í raun og veru umsvifalaust að vera tekin af dagskrá, lýstu sig reiðubúna til að endurskoða málið og við mundum þá hreinlega halda áfram á þeirri vegferð að vera með málið í hléi. Hvað er að því?

Ég hef reyndar heyrt að það séu einhver sæti í staðinn, að þetta snúist í raun og veru um forsætisráðherraskipti, en ég veit ekki um það. Það væri ágætt að fá það skýrt hér í þingsal sem fyrst. Og hvar er umhverfisráðherrann?