143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það var mótmælt hér fyrir utan í gær og það hafa verið boðuð mótmæli í dag og ekki aðeins vegna Evrópusambandsaðildarumsóknar eða þess máls sem hér var sett á dagskrá og tekið af dagskrá. Í dag hafa stúdentar einnig boðað til samstöðufundar og ekki að ósekju.

Síðastliðið sumar sá ráðherra ástæðu til að stilla stúdentum upp við vegg og skylda þá til að ljúka ákveðnum einingafjölda annars fengju þeir ekki lánafyrirgreiðslu, allt í nafni þess að útskrifa sem flesta á sem skemmstum tíma. Formaður stúdentaráðs hefur talað um að samkvæmt áætlunum sjóðsins eigi 1.300 kr. á dag að duga fyrir matar- og drykkjarkostnaði. Fyrir jólin sagði formaður Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík að það væri áhyggjuefni hversu margir ungir námsmenn leituðu í auknum mæli eftir mataraðstoð hjálparsamtaka, en samt hyggst ráðherrann halda áfram að herða ólina hjá námsmönnum og standa við fyrri áform. Er þetta sú fjölbreytni og sá sveigjanleiki sem við viljum sjá í flóru skólastarfsins, að torvelda fólki aðgang að námi með þessum hætti?

Það er víða sem ólga ríkir í skólasamfélaginu. Nú hafa framhaldsskólakennarar greitt atkvæði um verkfall sem ljóst verður í vikulokin hvernig fer, hvort það verður samþykkt eða fellt. Sem kennari get ég sagt að þótt kennarastarfið sé frábært og gefandi vitum við öll og höfum vitað mjög lengi að leiðrétta verður þann launamun sem hefur orðið hjá þeirri stétt. Formaður framhaldsskólakennara segir að kjaraviðræðurnar snúist fyrst og fremst um sanngjarnt endurgjald fyrir kennarastarfið, að launakjörin séu sambærileg hjá samanburðarhópum, hjá sama vinnuhópnum, þ.e. ríkinu. Eina innlegg ráðherrans í málinu eru að launaleiðréttingar framhaldsskólakennara séu framkvæmanlegar ef námið er stytt. Á sama tíma segir ráðherrann að kerfisbreytingar séu ekki hugsaðar sem hagræðingaraðgerðir. Er þetta boðleg framsetning af hálfu ráðherra? Kannski er þetta allt saman pólitískur ómöguleiki, virðulegi forseti.