143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:34]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Vald er verðmæti og lýðræði er aðferð til að fara með vald. Í mannkynssögunni er vald eitt af höfuðhugtökum sem birtist í öllum mannlegum samskiptum. Það kallar fram aðdáun, virðingu, ótta, öfund, ást og hatur. Í lýðræðisríkjum er valdi skipt í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald og vonin er ætíð sú að lýðræði stuðli að jafnrétti, virðingu og samábyrgð borgaranna.

Það komu fram sterkar raddir í þjóðfélaginu, eftir hrunið hér á landi, um að lýðræðið væri ekki að virka eins og best yrði á kosið. Rannsóknarskýrsla Alþingis segir okkur það en þar kemur fram, í máli margra stjórnmálamanna og annarra sem hafa verið viðriðnir stjórnmál á Íslandi áratugum saman, að stjórnmálamenn hefðu gefist upp fyrir viðskiptaveldinu og auðvaldinu. Að of fáir einstaklingar, valdamiklir einstaklingar, hafi ráðið of miklu og ráði of miklu í íslenskum stjórnmálum.

Það hefur líka komið í ljós að Íslendingar eru óánægðir lýðræðissinnar sem vilja þroska og efla samræðuna í samfélaginu og gefa lýðræðinu meiri tíma. Það hefur einnig komið í ljós, ekki síst hér úti á Austurvelli í gær, að þolinmæði almennings gagnvart beitingu valds fer þverrandi hér á landi, kannski ekki síst vegna þess að sú aðferð er í mótsögn við það sem kennt er á öllum okkar skólastigum. Þar er lögð mikil áhersla á að kenna helstu gildi, megingildi lýðræðislegs samstarfs, jafnrétti, virðingu og samábyrgð.

Hæstv. forseti. Valdið er verðmæti og mikil ábyrgð hvílir á þeim sem fara með vald fólksins. Valdið er ekki þeirra sjálfra, þau eru aðeins fulltrúar borgaranna sem skapa þetta vald. Eitt af því sem vinnur gegn lýðræðinu er fólk í stjórnmálum sem skeytir ekki um þessi megingildi. Ástæður ákvarðana eru oft huldar og erfitt getur verið að komast að þeim. Gildar ástæður í stjórnmálum sækja mátt sinn í almannaheill en ógildar í sérhagsmuni.

Hæstv. forseti. Við okkur stjórnmálamenn og fulltrúa hér á löggjafarþinginu vil ég segja þetta: Við eigum ekki að þjóna hagsmunum einstaklinga eða hópa og við eigum ekki að láta duttlunga eða geðþótta ráða för. Við eigum aldrei að setja sjálf okkur, vini okkar eða stjórnmálaflokk framar þjóð okkar.