143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér eftir sérstakar umræður var ætlunin að halda áfram að ræða skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við ESB. Mig langar að rifja aðeins upp það sem sagt var í upphafi þeirrar umræðu af hæstv. utanríkisráðherra um leið og ég óska eftir því að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra geti verið hér í umræðunni og tekið þátt, svarað spurningum, þannig að við eigum málefnalega umræðu.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að hann fagnaði því að umræða ætti að fara fram um þessa skýrslu. Hann óskaði eftir því að hún yrði grundvöllur að opinni og hreinskiptinni umræðu og málið á sínum tíma hefði ekki verið þess eðlis að það gæti stuðlað að sátt í samfélaginu. Ég vil gjarnan ræða það við utanríkisráðherra af hverju hann hefur ekki fylgt þeim leiðbeiningum og í stað þess skellt fram tillögu um að ljúka þessu í miðri umræðu um skýrsluna.

Ég vil biðja hæstv. forseta að tryggja það að hæstv. utanríkisráðherra fái tækifæri til að koma á mælendaskrá og svara nokkrum af þeim spurningum sem lagðar voru fram í gærkvöldi, en hæstv. ráðherra sagðist hafa hlustað á alla umræðuna og tekið og skráð (Forseti hringir.) niður þær athugasemdir sem þar komu fram.