143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að taka undir kröfu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um að afstaða hæstv. forseta til þessa máls liggi fyrir þegar og áður en við tökum til óspilltra mála við umræðu um tillögu hæstv. utanríkisráðherra.

Hins vegar er það svo að hæstv. utanríkisráðherra er í húsinu. Hann er ábyrgur fyrir tillögunni. Þetta er í fyrsta skipti sem ég minnist þess, á hartnær tuttugu og fjögurra ára ferli í þessu húsi, að ríkisstjórn leggi fram tillögu með greinargerð þar sem þingmenn eru bornir mjög hörðum sökum sem varða við stjórnarskrána.

Ég tel að ekki sé hægt að láta þetta mál liggja með þessum hætti. Hæstv. utanríkisráðherra verður að koma hingað og skýra frá því við hverja hann á og standa fyrir máli sínu. Það er ekki hægt að ata menn auri og híma síðan slímusetur í bakherbergi en þora ekki að koma hér til umræðunnar.