143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að hæstv. utanríkisráðherra mundi halda uppi vörnum fyrir þá hörmulegu greinargerð sem honum hefur fundist sæma að hafa með tillögu sinni. Það er því miður ekki staðreyndin, hæstv. fjármálaráðherra, því að hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki tekið efnislega þátt í umræðu um Evrópumál hér síðasta sólarhringinn.

Hæstv. fjármálaráðherra gerði það hins vegar að koma og lýsa ábyrgð á þessum ritsóðahætti á hendur hæstv. utanríkisráðherra og fylkti sér þar með að baki forseta þingsins í að afneita utanríkisráðherranum og málatilbúnaði hans. Það er í sjálfu sér virðingarvert, en manni þætti þá eðlilegra að menn drægju tillöguna til baka.

Hitt forðaðist hæstv. fjármálaráðherra náttúrlega að nefna sem er það að hæstv. forseti tók áðan undir með tveimur prófessorum sem sögðu í Fréttablaðinu í morgun að fyrirheitið í þingsályktunartillögunni um að binda hendur Alþingis til framtíðar væri að engu hafandi og væri innantómt loforð. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í Kastljósi í gærkvöldi að þetta væri hornsteinn tillögunnar. Hann er með öðrum orðum að engu orðinn og er jafn innantómt loforð og (Forseti hringir.) hin innantómu loforðin sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið um Evrópumál á (Forseti hringir.) undanförnum missirum.