143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að vera ósammála formanni mínum, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, vegna þess að ég lít svo á að hæstv. fjármálaráðherra beri fulla ábyrgð á þessari tillögu. Hann er annað höfuðið á ríkisstjórninni sem leggur fram þetta stóra mál og hann hefur lesið greinargerðina og hann hefur stutt að þetta sé rökstuðningur ríkisstjórnarinnar með málinu, út úr ríkisstjórn og út úr þingflokki. Hann hefur því að minnsta kosti komið að málinu tvisvar. Þess vegna ber hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins ábyrgð á því sem hér stendur.

Virðulegi forseti ætti að tala við formann Sjálfstæðisflokksins og spyrja hann að því hvort þetta eigi að verða viðtekin venja hér þegar menn úr ríkisstjórninni rökstyðja mál sitt, að vísa í atkvæðagreiðslu, gera lítið úr þeim og segja að þingmenn hafi ekki greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Verður það viðtekin að bera upp á þingmenn að þeir hafi brotið stjórnarskrá og fylgi ekki sannfæringu sinni? (Forseti hringir.) Ég fer fram á það, og bæti því kannski (Forseti hringir.) við erindi mitt sem ég hef sent til forsætisnefndar, að hæstv. (Forseti hringir.) forseti (Forseti hringir.) ræði þetta sérstaklega við formenn (Forseti hringir.) beggja stjórnarflokkanna.