143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst af athygli með umræðu um fundarstjórn forseta. Verið er að tala um undir liðnum um fundarstjórn forseta að bæta þurfi umræðuhefð um leið og menn tala um ritsóða. Þau hafa verið harðlega gagnrýnd, ég held að það séu ekki allir, það eru 20 þingmenn sem hafa farið upp undir liðnum um fundarstjórn forseta í dag, 20–30, ummæli hæstv. utanríkisráðherra hér um tilbrigði við málþóf. Síðan höfum við fengið enn eina staðfestinguna á því að Samfylkingin er svo sundurleitur hópur að meira að segja í umræðu um fundarstjórn forseta hafa orðið deilur á milli formanns og varaformanns. [Kliður í þingsal.] (KaJúl: Í hvaða barnaskóla ertu staddur?)

Virðulegi forseti. (KaJúl: Æi, vertu ekki svona hallærislegur.)[Hlátur í þingsal.] Fyrirgefðu, virðulegi forseti, þetta kom eitthvað við viðkvæman punkt hjá varaformanni Samfylkingarinnar. [Háreysti í þingsal.] En er ekki kominn tími á (Gripið fram í.) að þetta mál verði rætt (Forseti hringir.) þannig að hv. þingmenn geti gagnrýnt hæstv. utanríkisráðherra, hann komi hingað til svara og við ræðum málið efnislega? (Forseti hringir.) Er ekki kominn tími á það?