143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst að forseti verði að taka mark á því að kalla verði þetta inn í nefnd aftur. Það er verið að tala um að menn hafi ekki greitt atkvæði samkvæmt samvisku sinni, og það er stuðningur í greinargerð með þessari tillögu. Það tekur út yfir allan þjófabálk að ásaka þingmenn um slíkt. Ég er kannski skólabókardæmi um það, hæstv. utanríkisráðherra hér í hliðarsal, að menn greiddu atkvæði eftir eigin samvisku, ég greiddi ekki atkvæði með aðildarumsókninni, menn eiga ekki að ganga svona langt.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra gengur svo langt, þegar kallað er eftir gögnum til rökstuðnings á fordæmalausri greinargerð sem þarna kemur fram, með ásökunum á aðra þingmenn, að vísa til bókar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur gefið út (Gripið fram í.) þá spyr maður sig hvar maður sé staddur. Í hvaða leikriti er maður staddur hér? Það er með ólíkindum að hæstv. fjármálaráðherra skuli voga sér að (Forseti hringir.) lýsa því yfir að (Forseti hringir.) eitt af undirgögnum þessarar tillögu sé umrædd bók Össurar Skarphéðinssonar. [Hlátur í þingsal.]