143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég get ekki orða bundist. Mér finnst þetta ósköp einfalt. Niðurstöður atkvæðagreiðslna á þingi verða ekki dregnar í efa. Þær verða ekki dregnar í efa af einstökum ráðherrum eða ríkisstjórn Íslands. Þannig er það bara. Ef hæstv. forseti er sammála þessu fer hann fram á það, að sjálfsögðu, að þessi þingsályktunartillaga verði dregin til baka og greinargerð hennar endurskrifuð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Viljum við að fólkið í landinu, almenningur, fari að draga í efa niðurstöður í atkvæðagreiðslu hér? Það er okkar grunnskylda að greiða atkvæði um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og annað. Við tökum okkar ákvarðanir í þeim atkvæðagreiðslum og þær ákvarðanir sem hvert og eitt okkar tekur á ekki að draga í efa, það má ekki. Tillöguna verður að draga til baka og endurskrifa, annars hefur verið farið yfir mörk sem við viljum ekki fara yfir. Þá fyrst verður grafið undan virðingu Alþingis.