143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki stórmannlegt af hæstv. fjármálaráðherra að koma hingað og reyna að kasta hæstv. utanríkisráðherra einum á bálið og afneita honum og reyna að kenna honum um þessa hörmulegu tillögu og greinargerðina sem fer út yfir öll siðleg mörk í samskiptum á Alþingi. Ég sagði áðan og tel óhjákvæmilegt að endurtaka það, vegna þess að hér eru loksins ráðherrarnir viðstaddir, bæði hæstv. utanríkisráðherra, sem bregður ekki vana sínum og situr hér þögull út undir vegg, og svo hæstv. fjármálaráðherra, að það er grundvallaratriði í þinglegum samskiptum að forseti þingsins og forusta þingsins verji þingmenn fyrir ásökunum af því tagi. Fólk greiddi atkvæði hér sumarið 2009 sem ekki situr lengur á Alþingi. Við getum rekið vitleysisganginn ofan í hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra en það geta ekki allir þingmenn sem greiddu atkvæði sumarið 2009. Forseta þingsins ber að verja þá þingmenn (Forseti hringir.) og ber að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) ærumeiðingar af því tagi (Forseti hringir.) sem hæstv. utanríkisráðherra hefur skrifað og sem (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra ber auðvitað (Forseti hringir.) ábyrgð á.