143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í annað sinn sérstaklega út af orðum hv. 7. þm. Reykv. s., Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, vegna orða hans um að koma málinu á dagskrá. Það eru fleiri sem vilja fá þetta á dagskrá, nánar tiltekið svona 24.856 manns, sjálfsagt orðið um tveimur fleiri núna, 24.862 núna. Málið snýst um dagskrána. Málið snýst um hvað eigi að gera við þetta mál. Um er að ræða þingsályktunartillögu sem forsetinn getur ekkert neitað að samþykkja, forsetinn getur ekki skotið þessu til þjóðarinnar. Hér er eina leiðin til að skjóta þessu til þjóðarinnar. Við viljum alveg ræða málið, en það vilja þúsundir annarra manna líka, nefnilega þjóðin sjálf. Og við eigum að leyfa henni það. Hún hefur rétt til þess.