143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mjög eðlilegt að þingmenn ræði hér um fundarstjórn forseta, um það slugs sem okkur er boðið upp á af hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra hefur afneitað þessum gjörningi. Það er skiljanlegt.

Hér kom fram í gær að stjórnarþingmenn sem voru kallaðir til fundar til að ræða skýrsluna fengu hana rafrænt í hendur milli kl. 10 og 11 það kvöld, sumir sáu hana ekki fyrr en morguninn eftir. Ég ætla ekki að gera aftur að umtalsefni hver lak skýrslunni, það er annað atriði. En þarna leyfir maður sér að spyrja: Sáu þingmenn ekki það gagn sem verið er að leggja fram? Og ég set spurningu við þessa sóðalegu tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur flutt. Var það kannski eins með stjórnarþingmenn með þá tillögu? Sáu þeir hana ekki í því endanlega formi sem hér er lagt fram?

Virðulegi forseti. Þetta snýst um virðingu Alþingis, (Forseti hringir.) greinargerð með tillögum (Forseti hringir.) á að fjalla um málið og vera til rökstuðnings og upplýsinga (Forseti hringir.) fyrir okkur þingmenn. (Forseti hringir.) Ekki á að nota (Forseti hringir.) greinargerð til að ausa svívirðingum yfir þingmenn, (Forseti hringir.) ég tala nú ekki um þingmenn sem ekki eru hér og geta (Forseti hringir.) ekki svarað fyrir sig.