143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp aftur hérna til að árétta það sem ég sagði áðan vegna þess að mér þykir þetta verulega alvarlegt. Það er sagt í stjórnartillögu að atkvæðagreiðsla lýsi ekki afstöðu þingsins. (Gripið fram í: Já.) Það er það sem er verið að segja.

Það er ekkert annað sem lýsir afstöðu þingsins en atkvæðagreiðsla, hæstv. forseti. Ég vona að hæstv. forseti skilji það. Og nú verður hæstv. forseti að sýna að hann skilji það, að hann skilur þetta grundvallaratriði með því að gera skýlausa kröfu um að þessu verði breytt í greinargerðinni, hún dregin til baka og endurflutt öðruvísi. Að öðrum kosti er hæstv. forseti að lýsa sig samþykkan því að það sé til eitthvað annað hérna, einhver önnur afstaða en sú sem birtist í atkvæðagreiðslu. Hvert erum við þá komin? Hvert erum við þá komin með löggjafarsamkomuna? Hafa löggjafir þá ekki þýðingu vegna þess að hugsanlega er einhver önnur afstaða (Forseti hringir.) sem býr að baki gjörðum þingmanna þegar þeir greiða atkvæði? (Forseti hringir.) Það gengur ekki.