143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Framganga hæstv. ríkisstjórnar gagnvart Seðlabankanum undanfarna daga hefur vakið talsverða athygli, bæði innan lands og utan, og vakið spurningar. Ákvörðun um að auglýsa stöðu seðlabankastjóra lausa til umsóknar, fyrirætlanir um breytingar á lögum og gagnrýni hæstv. forsætisráðherra á störf Seðlabankans, skýrslur og greiningar sem bankinn hefur litið á sem lögbundið hlutverk sitt að vinna, hefur allt saman vakið spurningu um stefnu stjórnvalda hvað varðar sjálfstæði Seðlabankans.

Þetta er sérdeilis mikilvægt mál því að landið er jú enn að vinna sig út úr afleiðingum hrunsins og þegar stendur yfir mikil vinna og stórt verkefni sem er afnám gjaldeyrishafta á Íslandi sem við höfum kannski ekki fengið miklar upplýsingar um eins og ég fór yfir áðan í störfum þingsins. Þá hlýtur að vera afar óheppilegt að óvissa skapist um stöðu Seðlabankans og sjálfstæði hans en umfjöllun erlendra fjölmiðla sýnir að grannt er fylgst með þróun mála hér á landi og fregnirnar sem héðan berast vekja greinilega spurningar um hvert eigi að stefna hvað varðar Seðlabankann.

Fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar hafa bent á að gagnrýni stjórnarandstöðu eigi bara ekki við núna, ríkisstjórnin sé í fullum rétti til að stokka upp í yfirstjórn Seðlabankans enda hafi vinstri stjórnin gert hið sama. Munurinn er hins vegar sá að í febrúar 2009 sat ný ríkisstjórn uppi með gjaldþrota Seðlabanka og ríkissjóð á barmi gjaldþrots, Seðlabankinn var rúinn trausti og það var grundvallaratriði og liður í því að byggja upp traust í samfélaginu og út á við að skipta þar um yfirstjórn.

Aðstæður núna eru hins vegar þær að traust hefur aukist á undanförnum árum undir stjórn núverandi yfirstjórnar sem og árangur í þeim verkefnum sem Seðlabankinn hefur með höndum. Ég tel því fjarstæðukennt að líkja þessu saman.

Við skulum ekki gleyma því hvaða lagabreytingar voru gerðar 2009. Það var settur einn seðlabankastjóri í stað þriggja áður, sett voru ákvæði um að það þyrfti að auglýsa stöðuna sem áður voru ekki í lögum. Þetta er sjálfsagt mál í nútímasamfélagi að það þurfi að auglýsa stöðu.

Sett voru ákvæði um að bankastjóri yrði skipaður til fimm ára og mætti endurskipa hann einu sinni. Áður sátu þrír bankastjórar í sjö ár og mátti endurskipa einu sinni. Og það voru settar skýrar faglegar kröfur um að umsækjendur um stöðuna hefðu lokið háskólaprófi í hagfræði og byggju yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum. Engar slíkar kröfur voru áður í lögum.

Hæfni umsækjenda var svo, samkvæmt hinum nýju lögum frá 2009, metin af óháðri hæfnisnefnd. Tveir menn voru ráðnir, seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri, sem nefndin mat einróma hæfasta, þ.e. báðir mjög vel hæfir. Hér var því um faglegt ráðningarferli að ræða.

Að lokum var með lögunum sett á svokölluð peningastefnunefnd sem hefur það hlutverk að taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.

Ég vil því nýta þessa umræðu til að spyrja hæstv. ráðherra hvað það sé í lögunum frá 2009 sem hann vill breyta. Lýtur það að fjölda bankastjóra? Lýtur það að því að breyta hinu faglega ráðningarferli sem er tilgreint nákvæmlega í lögum og byggist á fagnefnd? Stendur til að fjölga bankastjórum og hver eru þá rökin fyrir slíkri fjölgun? Er hæstv. ráðherra ósammála þeim tillögum sem voru kynntar í frumvarpsdrögum um fjármálastöðugleikaráð og settar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis í vor þar sem lagt var til að ráða tvo aðstoðarseðlabankastjóra? Ef ekki, hvers vegna eru þær breytingar þá ekki látnar duga?

Sjálfstæði seðlabanka er mjög mikilvægt til að veita stjórnvöldum hverju sinni aðhald í efnahagsmálum og tryggja að ákvarðanir og greiningar á efnahagsmálum séu ekki eingöngu á forræði ríkisstjórnar hverju sinni. Hæstv. forsætisráðherra hefur gagnrýnt aðgerðir Seðlabankans, til að mynda þegar bankinn fjallaði um mögulegar skuldaaðgerðir stjórnvalda og hver efnahagsáhrif þeirra gætu orðið. Vissulega er ljóst að Seðlabankinn er ekki hafinn yfir gagnrýni og getur tekið henni, en ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé mér ekki sammála um að sjálfstæði seðlabanka sé lykilatriði fyrir traust á efnahagsstefnu þjóðarinnar, hvort sem er hérlendis eða erlendis.

Að lokum vil ég nefna að samkvæmt nýlega endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar stendur til að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands eigi síðar en 31. mars nk. Á sama tíma liggur ekki fyrir með hvaða hætti eigi að breyta lögunum. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað þverpólitískt samráð um málið en það er nokkuð ljóst að sá rétt rúmi mánuður sem er eftir fram að þessum fresti ríkisstjórnarinnar er talsvert skammur til að semja frumvarp og undirbúa það sómasamlega, ég tala nú ekki um ef alvörusamráð á að vera um málið.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að hann muni leggja hér fram frumvarp eftir þverpólitískt samráð fyrir 31. mars eða hvort hann telji jafnvel að það muni koma fram síðar.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn á Alþingi Íslendinga, til að eyða óvissu og skapa traust á hagstjórninni, að lýsa því yfir að hann beri fullt traust til núverandi seðlabankastjóra, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, því að það skiptir miklu máli.