143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í rauninni veit ég ekki alveg af hverju hæstv. fjármálaráðherra vill endurskoða lög um Seðlabankann. Gott og vel. Ég ætla að gera ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra sé mér og fleirum sammála um að það sé grundvallaratriði að verja sjálfstæði Seðlabankans, grundvallaratriði að Seðlabankinn sé faglegur aðili og geti haft ró og næði og aðstöðu til að sinna lögbundnum skyldum sínum sem eru mjög mikilvægar. Ég geri líka ráð fyrir að hæstv. fjármálaráðherra sé mér sammála um að eitt höfuðviðfangsefni íslensks efnahagslífs sé að byggja upp traust og því sé óæskilegt að vera með of mikinn hringlandahátt þegar kemur að þeirri grundvallarstofnun efnahagslífsins sem Seðlabanki Íslands er. Við skulum ekki lifa í þeirri blekkingu að við njótum mikils trausts vegna þess að gjaldeyrishöftin geta skapað þá tilfinningu í efnahagslífinu að þau viðhaldi miklu meiri stöðugleika en er í raun til staðar. Þau endurspegla ekki traustið á efnahagslífinu.

Svo hringja líka nokkrar viðvörunarbjöllur. Það hefur verið rauður þráður hjá þessari ríkisstjórn að vinda ofan af því sem hefur verið gert á undanförnum árum. Um það eru fjölmörg dæmi. Stundum finnst mér skorta efnisleg rök, það er einfaldlega verið að breyta til að breyta. Þetta er eiginlega fyrsta ríkisstjórn sögunnar sem má segja að sé ríkisstjórn í stjórnarandstöðu. Það virðist vera rauður þráður í gjörðunum. Mér finnst þurfa að rökstyðja sérstaklega að það sé ekki bara það sem búi að baki þessu hér.

Svo er það skilningur hæstv. fjármálaráðherra á því sem gerðist árið 2009. Mér finnst ótrúlegt að þurfa að minna hæstv. fjármálaráðherra á að Seðlabanki Íslands varð gjaldþrota í aðdraganda þess að seðlabankalögunum var breytt. Menn ráku sig allillþyrmilega á að það var ýmislegt sem þurfti að laga.

Svo er líka þriðja viðvörunarbjallan, skilningur hæstv. forsætisráðherra á núverandi seðlabankalögum. Hann leyfir sér að halda því fram að það sé óæskilegt að einn maður ráði of miklu í Seðlabankanum og það er eins og hann viti ekki að það er peningastefnunefnd sem tekur allar (Forseti hringir.) veigamestu ákvarðanirnar. Í henni sitja fimm manns. Ég verð að vonast til þess að að baki þeirri ætlun að endurskoða lögin búi nægilegur skilningur á lögunum eins og þau eru núna.