143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum umræðuna verð ég enn og aftur að minna á, af því hæstv. ráðherra segir að tilefni breytinganna sé að vega og meta þær breytingar sem voru gerðar 2009, það sem ég fór yfir áðan. Ég fæ ekki séð að það þurfi mikið að vega og meta að við gerum eðlilegar faglegar kröfur til seðlabankastjóra og að embættið sé auglýst og að skipunartíminn sé fimm ár. Mér finnst þetta vera svo sjálfsagðar og eðlilegar breytingar að ég get ekki ímyndað mér annað en að það mat skili því að þetta hafi verið eðlilegar breytingar á þeim tíma.

Hæstv. ráðherra velti því fyrir sér að furðulegt væri að tengja þetta við sjálfstæði Seðlabankann, en vissulega kemur þetta fram í ákveðnum samningi. Ég vitnaði til gagnrýni hæstv. forsætisráðherra sem steig hér fram og ræddi að vissulega væri æskilegt og mikilvægt að hafa sjálfstæðan seðlabanka, og ég vitna í hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta: „T.d. ef það er einhvers konar önnur ríkisstjórn en nú er mundi ég vilja hafa sjálfstæði Seðlabanka til að passa upp á hana.“

Ég tel ekki að þetta sé mál sem eigi að hafa í flimtingum, ef það var ætlun hæstv. forsætisráðherra. Því er eðlilegt þegar örfáum dögum síðar er tilkynnt að embætti seðlabankastjóra verði núna auglýst laust til umsóknar, sem er ekki nauðsynlegt samkvæmt lögum, það má endurskipa til fimm ára, að spurningar vakni um nákvæmlega hvert hæstv. ríkisstjórnin stefnir hvað varðar sjálfstæði Seðlabankans.

Hæstv. ráðherra lýsti því hér yfir að í þessu fælist ekkert vantraust á forustu Seðlabankans. Ég þakka honum fyrir þau skýru orð. En ég spyr um leið í ljósi þess að hæstv. ráðherra sagði líka að óvíst væri að þessum lagabreytingum yrði lokið fyrr en þær kæmu fram á næsta þingi: Hvernig nákvæmlega skapar það að auglýsa stöðu seðlabankastjóra lausa til umsóknar nú það svigrúm sem hæstv. ráðherra vitnar til til þess að gera lagabreytingar? Í ljósi þess að embættið er auglýst nú en við eigum hugsanlega ekki von á neinu frumvarpi fyrr en í haust spyr ég út í það. Hví er nauðsynlegt að auglýsa stöðuna lausa nú?