143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg nauðsynlegt að við þingmenn fáum svör við því hvernig á að vinna þetta. Við höfum spurt margoft hvort sá skilningur okkar sé réttur að skýrslan fari til nefndar og að tillaga hæstv. utanríkisráðherra um að draga umsóknina til baka verði ekki rædd fyrr en nefndarálit utanríkismálanefndar liggur fyrir.

Það er alveg ótrúlegt að við skulum ekki fá svör. Ég velti fyrir mér ef fólk er að horfa okkur hér, á hvort það haldi að við séum meira og minna treg að vera að spyrja að því sama aftur og aftur.

Virðulegi forseti. Það er af því við fáum ekki svör. Við þurfum að fá svör við því hvernig á að fara með málið. Einn af þeim sem gætu kannski gefið smáleiðbeiningu (Forseti hringir.) um hvað hann hyggst gera, því að hann verður verkstjóri í nefndinni, er hv. þm. Birgir Ármannsson. Hann er oft málglaður, (Forseti hringir.) málglaðari en margir. Kannski segir hann okkur hvernig hann ætlar að fara með þetta.