143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það skal sagt núverandi forseta til hróss að hér hafa verið lagðar fram tvær viðamiklar skýrslur til þingsins sem hafa fengið efnislega umræðu, verið vísað til nefndar og teknar til umfjöllunar í nefndum með fjölda gestum. Nefndirnar hafa skilað frá sér skýrslunum til þingsins og þingið hefur tekið þær til umræðu, fullnaðarumræðu. Þetta á við um tvær skýrslur sem snúa að rafköplum, annars vegar sæstreng til Evrópu og hins vegar jarðstrengja í jörð. Mér finnst þetta til fyrirmyndar hjá Alþingi.

Ég tel, virðulegi forseti, sem einn af nefndarmönnum í forsætisnefnd að þessi skýrsla eigi að fá nákvæmlega sömu meðferð. Henni á að vísa til utanríkismálanefndar. Ef utanríkismálanefnd vill fá umsagnir fleiri nefnda, eins og við gerðum í atvinnuveganefnd um hinar tvær skýrslurnar, á að gera það og síðan kæmi málið aftur til umræðu í þingsal.

Það er nýtt, virðulegi forseti, að skýrslur hafi (Forseti hringir.) fengið svo vandaða umfjöllun. Þessi skýrsla hlýtur að mínu mati að fá frá hendi forseta og frá hendi forsætisnefndar nákvæmlega sömu meðferð og hinar tvær (Forseti hringir.) skýrslurnar. Það vakti hins vegar athygli mína að hæstv. utanríkisráðherra lagði ekki til (Forseti hringir.) að skýrslan færi til nefndar. Það er ólíkt því sem hinir ráðherrarnir (Forseti hringir.) gerðu.