143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna vegna þess að ég átti von á því að hv. formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, segði okkur eitthvað um hver áformin væru um framhald þessarar skýrslu. En af því að ég hef hæstv. utanríkisráðherra hér í dyragættinni væri fróðlegt ef hann gæti sagt okkur hvaða óskir eða hugmyndir hann hefði um framhaldið vegna þess að í ræðu sinni fagnaði hann því að hér yrði umræða. Hann óskaði þess að við reyndum að ná sátt, hann óskaði þess að við sköpuðum einhverja framtíðarsýn, hann vildi að þetta yrði grundvöllur að opinni og hreinskiptinni umræðu. Væntanlega hefur hann ekki átt við að það yrði eftir að væri búið að loka málinu.

Ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra komi hér og segi okkur hvernig hann sér fyrir sér að málið verði rætt þannig að þau skilyrði sem hann nefndi í upphafi ræðu sinnar verði uppfyllt. Orðrétt sagði hæstv. ráðherra:

„Vona ég að skýrslan muni einnig skapa grundvöll fyrir opinni og hreinskiptinni umræðu í þjóðfélaginu um þetta stóra mál sem svo mjög hefur verið skipst á skoðunum um í þessum þingsal undanfarin ár.“