143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það var ánægjulegt að hv. formaður utanríkismálanefndar skyldi taka þátt í umræðunni en það varð nú ekki kannski til þess að dýpka hana eða til að átta sig á stöðu málsins.

Hver er sýn hv. formanns nefndarinnar á það hvernig vinna eigi úr þessu, því að það er ekki eins og það komi fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna að gera eigi úttekt. Það á að gera úttekt og Alþingi á að fjalla um hana, það stendur í samstarfsyfirlýsingunni. Hvað þýðir það? Hvað þýðir það í huga hv. þingmanns? Hvaða aðrar skýrslur eru nefndar í stjórnarsáttmálanum, svona í „forbífarten“?

Nú er að dragast hér upp með mjög skýrum hætti að það gengur ekki, virðulegur forseti, að halda umræðunni áfram. Það er ekki hægt að halda umræðunni áfram án þess að við fáum botn í þetta mál og það hvernig afgreiðsla og úrvinnsla málsins verður. Forsætisnefnd verður að fá ráðrúm til að (Forseti hringir.) hittast og þingmenn sem eru hér á mælendaskrá verða, með fullri virðingu, að vita út á hvað umræðan á að ganga hér. Til þess þarf forsætisnefnd að hittast. (Forseti hringir.) Ég árétta mikilvægi þess að forsætisnefnd verði kölluð til fundar nú þegar.