143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég skil það svo, og í gær var lesið upp úr þingsköpum, 56. gr., þar sem segir að vísa megi skýrslu til nefndar. Sé það gert skal fresta umræðunni og skal henni eigi fram haldið fyrr en einni nóttu eftir útbýtingu nefndarálits. Við framhald umræðna gilda að nýju ákvæði þingskapa um ræðutíma um skýrslu. Ég lít því svo á að ekki sé um annað að ræða en að gert verði nefndarálit og málið komi aftur fyrir þingið. Ég bið þá sem þingreyndari eru en ég um að leiðrétta mig ef svo er ekki.

Ég tek undir með þingmönnum sem óskað hafa eftir afstöðu formanns utanríkismálanefndar. Þó að hann ráði vissulega ekki einn ferð í nefndinni hlýtur að skipta máli að sá sem stýrir vinnunni þar hafi einhverja skoðun sem hægt er að viðra, þ.e. hvað honum finnst og hvernig eigi að meðhöndla málið. Og ég tek undir það að ég hef nú heyrt hann svolítið skýrari og beittari í framsetningu en hann var hér áðan.

Tekur hann undir þau orð forseta (Forseti hringir.) sem hér féllu í gær varðandi þessa málsmeðferð? Eða hefur hann einhverja (Forseti hringir.) aðra skoðun á því?