143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ég vil gera að umtalsefni, örstutt, þá greinargerð með brigslyrðum sem hér hefur verið töluvert í umræðu og hæstv. utanríkisráðherra ber ábyrgð á. Þegar maður skoðar hvaða afleiðingar það hefði fyrir stjórnarmeirihlutann að gera breytingar á greinargerðinni er í raun og veru bara um einfalda uppprentun á tillögunni að ræða. Það hefur engin áhrif á tímaspursmál, það þarf enginn tími að líða eða neitt slíkt. Við erum fyrst og fremst að glíma við þvermóðsku hæstv. utanríkisráðherra sem þolir ekki þann andlitsmissi að láta breyta tillögunni eða greinargerðinni sem um ræðir, það er augljóst. Það getur ekkert annað legið að baki en að menn geta ekki fyrir sitt litla líf viðurkennt það að þeir hafi farið yfir strikið, að þeir hafi sagt meira en nauðsynlegt er.