143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er áhugaverð umræða um þingstörfin sem á sér stað, fundarstjórn forseta og mjög áhugavert og gaman að hlusta á þetta. Tíminn líður, helgin nálgast. Hér er talað um framgang mála og hvernig meðferð mál skuli fá í þinginu.

Sú skýrsla sem á að vera hér til umræðu en er nú minnst talað um — það er ekki vaninn að slíkar skýrslur fari endilega til nefndar. Ef menn fara yfir síðustu ár og síðustu þing munu þeir sjá að fæstar þeirra hafa farið til nefndar. Skýrsla hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um raforkustreng, minnir mig, fór til nefndar. Ráðherrann bað um það og lagði það til sjálf. (Gripið fram í: Var það stærra mál en þetta?) Ég hef hins vegar ekkert á móti því að þessi skýrsla fari til nefndar. Nefndin sjálf ákveður hvernig hún tekur á henni. Ég hef ekkert á móti því.