143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra vegna þess að þetta kom ekki fram þegar skýrslan var flutt. Það eru tvær skýrslur á þessu þingi sem ráðherrar í ríkisstjórninni hafa óskað eftir að fari til umfjöllunar í nefndum og nefndir hafa unnið þær og skilað greinargerð hingað, eins og ég hef áður sagt, til framhaldsumræðu og málið klárað.

Mér finnst góður bragur á því að utanríkismálanefnd fái þessa skýrslu. En ég vil líka segja vegna þeirrar þingsályktunartillögu sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram á Alþingi að það liggur auðvitað í augum uppi eftir ummæli hæstv. utanríkisráðherra að umræða um þá tillögu getur aldrei byrjað fyrr en utanríkismálanefnd hefur klárað að fara yfir skýrsluna, vegna þess að í tillögu ríkisstjórnarinnar er sagt að hún sé grunngagnið til að stíga næstu skref þar á eftir. Þetta er grundvallaratriði. Hinni þinglegu meðferð skýrslunnar sem utanríkisráðherra vill að fari til nefndar (Forseti hringir.) lýkur ekki fyrr en nefndirnar hafa klárað störf sín og Alþingi hefur klárað þá umræðu sem boðið er upp á um skýrsluna. Mér finnst það mjög gott. Hæstv. ráðherra á að átta sig á því að tillagan getur ekki komið hingað til umræðu fyrr en hinni þinglegu meðferð lýkur.