143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég man rétt kemur fram í þessari skýrslu að það séu allar líkur á því að hægt sé að ná góðu samkomulagi í viðræðunum um landbúnaðinn en ég get ekki fyllilega svarað spurningum hv. þingmanns sem eru bara sönnun þess að við þurfum að fara í landbúnaðarkaflann og fá niðurstöðu til að geta rætt þessi mál. Það eru svo margar spurningar sem standa opnar um þetta stóra hagsmunamál sem verður ekki svarað nema að samningurinn verði kláraður, hann kynntur vel og vandlega fyrir þjóðinni og í framhaldinu getum við tekið upplýsta ákvörðun.

Hvort málefnin mundu leggjast svona eða hinsegin í landbúnaðarmálunum get ég hreinlega ekki svarað en í skýrslunni er samt látið að því liggja — mig minnir að það hafi einmitt komið fram hér í viðræðum að í viðauka sé setning einhvern veginn á þá leið að menn sjái ekki neinar hindranir í því að ná góðum samningi eða komast að niðurstöðu í landbúnaðarmálunum.