143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í skýrslu Seðlabankans er farið mjög ítarlega yfir þá kosti sem hv. þingmaður nefndi hér, að taka upp evru, halda sig við krónuna eða taka upp annan gjaldmiðil, tengja sig við hann eða taka hann upp einhliða.

Í niðurstöðu skýrslunnar segir að það séu tveir kostir, annaðhvort upptaka evru eða krónan áfram. Ég á erfitt með að sjá það fyrir mér hvernig við getum skapað stöðugleika hér og gert til framtíðar plön sem halda með krónuna sem gjaldmiðil. Það er líka mjög dýrt fyrir okkur, 320 þús. manna þjóð, að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli en ætla um leið að keppa við þjóðir þar sem 500 milljónir manna bera uppi gjaldmiðilinn. Það sjá allir að sá leikur er ekki jafn og það er auðvelt að taka okkur niður í samkeppninni þegar svo háttar til.

Ég sannfærist alveg við lestur skýrslunnar um að einhliða upptaka annars gjaldmiðils gengur ekki. Það eru allt of margir gallar á því og það mun ekki ganga þannig að ef það er ekki evra hlýtur það að vera krónan með þá breyttu hugarfari og vinnulagi varðandi ríkisfjármál. Um leið sættum við okkur þá við þær sveiflur sem við verðum að ganga í gegnum með svo lítinn gjaldmiðil og við þann kostnað sem það mun hafa í för með sér fyrir almenning að halda honum uppi.