143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég treysti ekki minninu nákvæmlega hvað þetta varðar og man ekki tölur í þessu sambandi. Hins vegar tel ég það vera þannig að til að byrja með mundu Íslendingar fá meira en þeir greiða til baka en vegna þess að styrkir Evrópusambandsins ganga út á að jafna stöðu held ég að svo geti orðið. Vissulega væri best ef þarna væri jafnvægi og ekki þyrfti að gefa með okkur heldur væri staða okkar þannig að við þyrftum ekki að fá stórar fúlgur frá Evrópusambandinu.

Ávinningurinn er fyrst og fremst efnahagslegur fyrir þjóðina. Ástæðan fyrir því að mér finnst mikilvægt að við göngum í Evrópusambandið og tengjumst þessum Evrópuþjóðum og efnahagssviðinu er ekki sú að ég vonist eftir því að Ísland fái meiri styrki en aðrar þjóðir. Það væri bara styrkur fyrir ímynd og ásýnd landsins ef þarna væri jafnvægi en, eins og ég segi, ef ég man rétt er gert ráð fyrir því að það halli á Evrópusambandið í byrjun en síðan kæmist á jafnvægi.