143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla auðvitað ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn en í ljósi þess að stór hluti ræðunnar fjallaði um kosti styrkjakerfis Evrópusambandsins gat ég ekki dregið aðra ályktun en þá að hv. þingmaður teldi það góð rök fyrir aðild að Evrópusambandinu hversu gott sóknaráætlunarkerfi væri innan þess sambands.

Sá þáttur fékk miklu meiri athygli í ræðu hennar en efnahagslegi þátturinn sem við getum kannski deilt um síðar.

Ég held að ef við veltum fyrir okkur hinum efnahagslegu þáttum þurfum við að horfa bæði á kostina og gallana. Þá komum við auðvitað að því sem stendur mjög í mér sem andstæðingi aðildar að Evrópusambandinu, því hver staða okkar yrði við að vera hluti af myntsvæði þar sem við værum óverulegir aðilar, við gætum sagt algjör jaðaraðili. Vextir evrusvæðisins munu ekki ráðast af efnahagsástandi á Íslandi frekar en þeir ráðast af efnahagsástandi í öðrum fámennum (Forseti hringir.) jaðarsvæðum Evrópusambandsins þegar horft er til þess að hagsveiflan er hér með allt öðrum hætti en gerist og gengur innan Evrópusambandsríkjanna.