143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:14]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Við ræðum skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið og þróun mála innan sambandsins.

Ríkisstjórnin tilkynnti að hún ætlaði að láta vinna þessa skýrslu og hún væri sett fram til að draga fram kosti og galla við aðild Íslands að Evrópusambandinu svo að við hefðum einhvern sameiginlegan grundvöll til að ræða saman um Evrópusambandið. Þegar ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra tilkynntu þetta varð ég mjög glöð og vongóð og trúði því að hér væri verið að biðja um gagnrýnar umræður og skoðanaskipti sem gætu nýst við næstu skref. Ljóst er að þau fyrirheit um þá ágætu vinnutilhögun ganga ekki eftir. Sólarhringur leið af umræðu í þinginu þar til hæstv. utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Í ræðu sinni við byrjun þessarar umræðu, þ.e. um skýrsluna, lét hæstv. utanríkisráðherra í það skína að það samtal hér, sem við eigum núna og höfum átt, hefði eitthvað að segja, að það skipti máli. En greinilegt er, herra forseti, að það eru orðin tóm. Það er enginn áhugi hjá ráðherranum á umræðunni og því sem hún ætti að leiða til. Það er búið að taka ákvörðun. Markmiðið með umræðunni ætti að vera að skiptast á skoðunum, spegla stöðuna, ræða af gagnrýni kosti og galla aðildar og ná áfram í samræðunni, því að nóg erum við búin að vera föst.

Nei, herra forseti, það er ekkert í þessu því að enginn vilji er hjá ríkisstjórninni að stunda þess lags stjórnmál þó svo að samræðustjórnmál hafi verið ansi vinsælt hugtak fyrir kosningar. Þetta er ekkert annað leiksýning, sjónarspil í beinni, en þessi sýning er svolítið dýr því að verðmiðinn á skýrslunni er 25 milljónir. Heiðarlegra hefði verið, herra forseti, að fara bara ekkert út í að gera þessa skýrslu. Mér finnst umhugsunarvert að 25 milljónir rúmist innan fjárlaga, þessara svokölluðu hallalausu fjárlaga, sem ekkert á svo að gera með, 25 milljónir út um gluggann.

Við minnihlutaþingmenn höfum verið að tala hver við annan og einnig við einstaka þingmenn stjórnarmeirihlutans, sem er vel. En við erum einstaklega lág í framleiðslu hér, við þingmenn, því að engu máli skiptir hvað við segjum, það er búið að taka ákvörðun. Manni finnst maður ekki vera að gera mikið gagn, ég verð að segja það, og mér finnst tíma mínum ekki vera vel varið, eða tíma okkar allra hér.

Báðir ríkisstjórnarflokkarnir sögðu blákalt fyrir kosningar að fólk fengi að kjósa um áframhald viðræðnanna. Ef þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra um slit á viðræðum við ESB nær fram að ganga þá eru það svik við fólk sem kaus þá flokka í góðri trú. Það er ekkert túlkunaratriði, herra forseti, en margir reyna að grípa til einhverra eftiráskýringa. Þingsályktunartillagan gengur þvert á það sem gefið var út í aðdraganda kosninga. Og þó að hæstv. utanríkisráðherra virðist vera slétt sama þá er það greinilegt og heyrist hér í sölum þingsins að almenningur er ekki sama sinnis. Hann stendur sína vakt fyrir utan þinghúsið og veitir okkur aðhald, það aðhald sem við þurfum svo sannarlega á að halda.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hef metið þingmenn stjórnarflokkanna meira en þetta. Ég hef haft af þeim mörgum góð kynni og gott samstarf. Það mun koma mér verulega á óvart og mörgum öðrum líka, hygg ég, og ég verð fyrir verulegum vonbrigðum ef stjórnarþingmenn taka undir þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir og greiða farveginn fyrir svona vinnubrögðum. Ef þetta fyrirkomulag nær fram að ganga eru þingmenn stjórnarflokkanna orðnir gerendur í svikum, gerendur með svikum sínum til kjósenda sinna. Vel að merkja hella þeir líka olíu á eld þeirra sem lengi hafa vantreyst núverandi stjórnarflokkum, sem telja að hið sanna eðli stjórnarflokkanna vera að brjótast fram núna. Ég vil segja, herra forseti, við stjórnarþingmenn í fullri einlægni: Þetta er í ykkar höndum og þið hafið tækifæri til þess að verja heiður ykkar.

Þá að skýrslunni, herra forseti. Í henni er gerð ágætlega grein fyrir stöðunni í dag og fram að þessu. Hægt er að álykta um helstu kosti og galla við aðild. Þó er aðallega gerð grein fyrir stöðunni eins og hún er í dag. Mér þætti gott að bíða eftir hinni skýrslunni sem er á leiðinni, sem á að draga betur fram helstu kosti og galla. En það er þó ekki svo gott að við séum með samning fyrir framan okkur, það væri auðvitað best að við værum að ræða þetta bara konkret. Þessi umræða mun alltaf vera spekúlatíf og það er kannski allt í lagi ef við værum ekki komin á þann stað sem við erum í dag. Það liggur svo mikið á, við erum komin fram úr okkur. Við ættum að vera að vega og meta kosti og galla í þessum umræðum, herra forseti. Til að maður gæti tekið þátt í slíkum umræðum þyrftu þær að hafa einhvern raunverulegan tilgang. Þær mundu hafa það ef ekki væri verið að ana hér áfram með fyrir fram gefna niðurstöðu.

Ég geri þetta aðallega að umtalsefni í þessari ræðu út af því að ég get ekki leynt því hvað þessi vinnubrögð gera mig dapra um stöðu stjórnmálanna í þessu húsi. Það hryggir mig mjög að hæstv. utanríkisráðherra beri ekki meiri virðingu fyrir kjósendum sínum sem kusu í góðri trú. Það er heldur engin virðing borin fyrir hinum 49% kjósenda sem kusu raddir minni hlutans. Ég minni á að við erum öll hér í samfélagsþjónustu fyrir allt það fólk og við skulum hafa hlutverk okkar með það alveg á hreinu.

Herra forseti. Það sem stendur helst upp úr eftir lestur skýrslunnar er að það er ekkert í henni sem gefur tilefni til þess að slíta viðræðum, ekkert sem gefur tilefni til þess. Það eru kostir og gallar við aðild að Evrópusambandinu og við þurfum að leggja þá á vogarskálarnar. Helstu kostirnir sem ég sé eru fyrst og fremst opið land í samstarfi við þjóðir sem eru nálægt okkur og við erum bundin órjúfanlegum böndum menningar, siðferðis og sögu.

Mér líst vel á frjálst flæði vara og viðskipta við neytendur og fyrir lífsgæðin hér á landi. Mér líst vel á gjaldmiðil sem á sér stærra samhengi og bakland en okkar flöktandi króna. Mér líst vel á lægra vaxtastig en við búum við, á ódýrari lán og virka samkeppni á lánamörkuðunum. Mér líst vel á þetta, herra forseti. Við verðum að horfa til gjaldmiðilsins sem við notum eða þess sem við viljum nota. Óstöðugleiki íslensku krónunnar gerir að verkum að meiri áhætta er en ella að lána fólki peninga, eins og við vitum, og þess vegna eru vextir hærri hér á landi. Verðbólgan sem við þekkjum svo vel sýnir okkur þennan óstöðugleika, og svo erum við að reyna að jafna hana út með verðtryggingunni, sem er eins og sendiboðinn með slæmu tíðindin, eilíflega hataður eða drepinn í stað þess sem kom boðunum út.

Við erum í algjörlega absúrd skuldavanda, íslenska ríkið og þar með þjóðin öll, og þá sérstaklega unga fólkið og börnin okkar. Við erum alltaf svo óþægindafælin að við ýtum vandanum á undan okkur. Þetta er grafalvarlegt mál, herra forseti. Ég vil segja það hér að ég hvet eindregið til þess að ungt fólk fái kosningarrétt fyrr en nú er svo að það fái þann sjálfsagða rétt að hafa raunverulega eitthvað að gera með framtíð sína en sitji ekki bara uppi með það, já þann þrönga stakk sem stjórnmálamenn leyfa sér að sníða fyrir komandi kynslóðir.

Við bjóðum upp á óstöðugt efnahagsumhverfi og skuldir. Við verðum að ræða um traust í efnahagsmálum og í því sambandi og nátengt þurfum við að ræða um traust til stjórnmálamanna, eins og ég ræddi um í byrjun ræðu minnar. Það er aldeilis ekki beysið núna.

Getur Ísland haldið uppi stöðugleika eitt og sér með íslensku krónunni eða er betra að við séum partur af þeirri heild sem raunverulega hefur hvað mest áhrif á okkur? Við þurfum að spyrja okkur að því og ekki aðeins út frá hagsmunum okkar í nútíðinni heldur hverju við skilum til barnanna okkar.

Herra forseti. Ég sé að tími minn sem ég fæ í þessa ræðu er senn á enda. Það er margt sem ég á eftir að ræða, ég mun vonandi fá að gera það í minni seinni ræðu, hlutir eins og lýðræðishallann sem er falinn í því að vera í EES en ekki í ESB. Umhverfismál eru nær algjörlega ósnert í þessari umræðu, ræða þarf þau mál og setja í samhengi þjóða en ekki bara okkar þjóðríkis.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja þetta: Ef stjórnarflokkunum er það ómögulegt einhverra hluta vegna að fara að vilja fólks, og auðvitað fyrst og fremst að leyfa fólki að lýsa yfir vilja sínum varðandi aðildarumsókn við ESB, ef ríkisstjórninni er það ómögulegt af því að hún er hrædd við niðurstöðuna, þá verður fólk að víkja úr vegi fyrir þeim sem eru tilbúnir til að vinna hér í þessum sal í samræmi við óskir þess fólks sem við erum í þjónustu fyrir. Ég tel reyndar þetta ekki vera neinn ómöguleika. Stjórnvöld eiga að vera í stakk búin til að vinna að hvaða máli sem er fyrir þjóð sína sem hún svo kýs, það á ekki að vera neitt vandamál. Við eigum ekki að vera stærri en þau sem eru hér úti að kalla á okkur.

Ef núverandi ríkisstjórn treystir sér ekki til þess og treystir sér alls ekki til þess að sjá neinn annan við stjórnartaumana, það hefur verið talað um það — við í Bjartri framtíð gera allt til þess að leita lausna og koma okkur hérna eitthvað aðeins áfram — þá legg ég til að ríkisstjórnin geti einfaldlega gert hlé á viðræðunum, sem er nota bene í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, en þar segir ekkert um slit viðræðna.