143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir góða ræðu. Hún tilheyrir stjórnmálaflokknum Bjartri framtíð, sem er nýr og hefur unnið með að byggja á gildum og mjög margir kjósendur hafa orðið hrifnir af því, enda glæsilegt og frambærilegt fólk sem hefur verið þar í forsvari. Þau eru sem sagt nýr flokkur hér inni á Alþingi. Mig langar að heyra hvernig hún sem fulltrúi nýs flokks, nýrra hugmynda og nýr þingmaður upplifir það að vera hér þar sem með stjórn fara tveir gamlir, rótgrónir flokkar, sem fólk kaus út á nokkur hundruð milljarða skuldaniðurfellingu, sem nú hefur breyst í 80 milljarða, út á afnám verðtryggingar, sem hefur nú breyst í bann á 40 ára verðtryggðum lánum en leyfi allt annað; stjórnmálaflokkar sem lofuðu því að þjóðin fengi að kjósa um hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hana hafi órað fyrir því að hún ætti eftir að upplifa þetta í lýðræðissamfélagi. Ég held að það sé leitun að öðrum eins grímulausum kosningasvikum og við erum að verða vitni. Nú var ég hér síðasta kjörtímabil og var oft að munnhöggvast við núverandi stjórnarmeirihluta þannig að ég kannski er ekki hlutlaus, en mig langaði að heyra í nýjum þingmanni.