143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:44]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurningarnar. Nei, ég vil ekki endilega draga upp glansmynd af Evrópusambandinu. Ég tel að það sé margt ágætt þar en það er líka margt þar sem er ekki gott. En það er ekki eins og þetta sé einsleit mynd. Hv. þingmaður talaði um atvinnuleysi í Evrópusambandinu. Atvinnuleysi í Evrópusambandinu er mjög misjafnt eftir löndum, alveg eins og á Íslandi, það er misjafnt eftir landshlutum. Það er misjafnlega mikið atvinnuleysi eftir landshlutum, það er mikið á Suðurnesjum en lítið í t.d. Norðausturkjördæmi, þannig að ég held við verðum að passa að setja ekki alltaf allt undir einn hatt þegar við ræðum um Evrópusambandið. Það er ekki eins og það sé orðið eitt land. Það eru mörg lönd innan Evrópusambandsins.

Það sem ég held að Evrópusambandið geti hjálpað okkur með er að ná stöðugleika og eins og ég talaði um í ræðu minni tel ég að pólitískur stöðugleiki og fjárhagslegur stöðugleiki haldist algerlega í hendur. Við þurfum svolitla aðstoð við það, sýnist mér á öllu.

Ég vil sjá samninginn. Eins og ég sagði í ræðu minni verður þetta alltaf „spekúlatíft“ og auðvitað er ekki hægt að segja: Svona verður framtíðin, ég ætla að sýna þér hana hérna á blaði. Við getum aldrei vitað hvernig framtíðin verður en við getum reynt að koma með bestu ágiskun út frá bestu mögulegu gögnum (Forseti hringir.) og ég tel að við eigum vinna jafnt að því að ná í þau.