143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú vitum við hvað varðar gjaldmiðil okkar sem hefur fylgt okkur í gegnum árin að sveiflur þar hafa verið teknar með gengisfellingu. Í Evrópu hafa hagsveiflur komið niður á atvinnu í löndum þar og þess vegna hafa menn óttast það að vera lítið brot eins og íslenskt hagkerfi er í stóru hagkerfi, að ekki væri hægt að taka þessar sveiflur með gengislækkun sem mundi birtast í atvinnuleysi. Sem betur fer hefur okkur tekist að halda atvinnuleysi niðri. Ég vil spyrja hv. þingmann um félagslegt réttlæti og annað því um líkt og hvernig Evrópuþjóðirnar hafa tekið á kreppunni í samanburði við Ísland. Við fórum blandaða leið til að taka á kreppunni en í Evrópu hefur verið farin nýfrjálshyggjuleið, eins og í Grikklandi og í fleiri löndum, með mjög miklum niðurskurði. Ég vil spyrja hv. þingmann út í þær aðgerðir.