143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Frómt frá sagt þá sé ég það nú ekki alveg fyrir mér. Auðvitað get ég eins og aðrir dregið ályktanir af þeirri stöðu sem er nú uppi og ég get heldur ekki auðveldlega séð fyrir mér þróunina á Íslandi næstu fimm árin. (Gripið fram í.) Nei. Hv. þingmaður segir að það sé mikil umræða um eða að einhverjir hafi jafnvel nefnt upptöku nýrrar myntar. Ég held að í raun sé engin umræða í gangi um það í alvöru að hverfa frá evrunni. Evran er auðvitað gjaldmiðill sem farið hefur um mikinn ólgusjó, þó að við séum nú mörg sem mundum fagna því að vera með hana en ekki íslensku krónuna á þessari stundu.

Svo er þróunin varðandi Skotland. Verði Skotland að sjálfstæðu ríki hefur það lýst því yfir að það vilji vera innan (Forseti hringir.) Evrópusambandsins og þjóðir sækjast þangað inn og eru síst af öllu að reyna að koma sér þaðan út.