143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ef ég ber hæstv. utanríkisráðherra þeim sökum að hafa ekki farið að samvisku sinni og brotið þar af leiðandi gegn fyrirmælum stjórnarskrárinnar ber hæstv. forseta að víta mig ef ég geri það úr þessum ræðustól. Ég met það auðvitað að hæstv. forseti hafi tekið það að sér að gerast einhver sendiboði hæstv. utanríkisráðherra en hæstv. utanríkisráðherra hefur setið hér undir þessari umræðu þó að hann hafi ekki látið svo lítið að taka þátt í henni. Hann hefur heyrt hvað við höfum sagt. Hann ber ábyrgð á þessum óþokkaummælum, og með þeim hætti meira að segja að hæstv. fjármálaráðherra vill ekki bera þá ábyrgð með honum. Það er hæstv. ráðherra að draga þau til baka og við getum auðvitað ekkert beðið frekar eftir einhverjum upplýsingum um það hvenær honum þóknast að leggja endurmat á það. Hæstv. ráðherra situr hér og hann getur komið hingað upp og sagt það skýrt hvað hann vill gera í þessu máli. Það er ófært að halda áfram þessari umræðu við þessar aðstæður. Og það er ófært að búa við það að hér sé ríkisstjórn sem ætli að ganga fram með þessum hætti (Forseti hringir.) og hún leitast ekki einu sinni við að leiðrétta augljósar (Forseti hringir.) missagnir, ranghermi og ásakanir gegn fólki sem (Forseti hringir.) ekki á skilið að sitja undir þeim.