143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég úr ræðustól Alþingis færa forseta þakkir fyrir þann fund sem var í forsætisnefnd áðan þar sem hart var tekist á. Við fulltrúar minni hlutans lýstum skoðunum okkur á þeirri tillögu sem hér hefur mikið verið rætt um og alveg sérstaklega þeirri greinargerð sem með henni fylgir, sem er algerlega óþingtæk og fyrir neðan virðingu Alþingis að láta standa í þingskjölum.

Ég ber mikið traust til hæstv. forseta Alþingis. Mér finnst hann hafa brugðist rétt við. Hann lýsir yfir í upphafi þessa fundar eftir matarhlé að hann hafi komið þeim sjónarmiðum á framfæri við hæstv. utanríkisráðherra, þeim sem valda hér úlfúð og því sem þarf að taka út úr greinargerðinni. Meðan ekki er komin niðurstaða í það þá tel ég að forseti eigi að slíta fundi, í það minnsta (Forseti hringir.) að fresta honum svo hæstv. utanríkisráðherra gefist tóm til að klára þetta mál og koma hingað með útskýringar sínar eða niðurstöðu, en best væri að hann kæmi og bæði Alþingi afsökunar á þeirri greinargerð sem er sett fram.

Það er tillaga mín að þessum fundi verði slitið meðan þetta á sér stað eða alla vega frestað.